Leggur til kvótaskerðingu þangað til verkfallið leysist

Þórólfur Matthíasson hagfræðiprófessor. Mynd: visir.is / GVA

Þórólfur Matthíasson, prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands, leggur til að stjórnvöld skerði fiskveiðikvóta næsta árs um allt að fimm prósent á viku meðan sjómannaverkfallið stendur yfir. Innkallaðan kvóta mætti síðan leigja út og nota andvirðið til að bæta stöðu þeirra sveitarfélaga sem hafi orðið hvað harðast úti í deilunni.

Þetta skrifar Þórólfur í aðsendri grein í Kjarnanum. Hann segir að nú þegar tveir mánuðir séu liðnir síðan sjómannaverkfallið hófst virðist deilendur fjær því að ná samkomulagi en við upphaf deilunnar, þvert á það sem ætla mætti. „Sé samningsvilji lítill leysast verkföll venjulega þegar annarhvor aðilinn eða báðir átta sig á að kostnaðurinn við áframhaldandi verkfall er þeim sjálfum of dýr,“ skrifar Þórólfur.

Verkfallið er byrjað að hafa áhrif á fjárhag sveitarfélaga sem treysta verulega á sjávarútveg og nefnir Þórólfur að þar hafi hægt á innstreymi útsvarstekna og hafnargjalda. „Þessi sveitarfélög geta ekki hægt á greiðslum til grunnskóla- og leikskólakennara sem dæmi séu tekin. Þau eru því í klemmu,“ skrifar Þórólfur.

Hann segir deiluna bitna harðast á þriðja aðila af meiri þunga en á bæði sjómenn og sjávarútvegsfyrirtæki. „Tekjuflæði sjávarútvegsfyrirtækja sem ekki eiga birgðir hægist eða stoppar meðan á verkfalli stendur. En þar sem þessi fyrirtæki hafa í höndum rétt til að veiða svo og svo mikið magn af fiski er aðeins um seinkun tekjuflæðis að ræða. Félög með góða eiginfjárstöðu eiga auðvelt með að leysa úr þeim fjárhagsvandræðum sem slík seinkun greiðsluflæðis kann að valda. Hugsanlega fæst lægra verð fyrir afurðir vegna tímabundins offramboðs þegar verfall leysist.“

Þá bendir hann á að sjómenn fái greiðslur úr verkfallssjóðum, og því leggist verkfallið af minni þunga á þá sem eru í verkfalli en á þriðja aðila. „Það eru því sterkar vísbendingar um að verkfallið geti staðið nokkrar vikur, jafnvel mánuði í viðbót,“ skrifar Þórólfur.

Ár­lega fá útgerð­ar­fé­lög bréf frá Fiski­stofu þar sem þeim er úthlutað rétti til veiða ákveð­ins magns af hinum ýmsu fiski­teg­und­um. Þórólfur segir að það sé ekkert sem banni stjórn­völdum að skil­yrða þá úthlutun sem fyrir dyrum stendur 1. sept­em­ber næst­kom­and­i.  Þannig gæti rík­is­stjórn og Alþingi ákveðið að kvóti næsta árs skerð­ist um t.d. 5% fyrir hverja viku sem verk­fall stendur lengur en 8 vik­ur. Inn­kall­aðan kvóta mætti síðan leigja út og nota and­virðið eða hluta þess til að bæta stöðu þeirra sveit­ar­fé­laga sem verða fyrir hvað mestum skaða vegna verk­falls­ins.

smari@bb.is

DEILA