Inflúensan líklega í hámarki

Frá því í lok nóvember 2016 hefur inflúensa A(H3) verið staðfest hjá 226 einstaklingum á landinu er fram kemur á vef Landlæknisembættisins. Í síðustu viku greindust fleiri með staðfesta inflúensu samanborið við vikurnar á undan og hefur hún nú verið staðfest í öllum landshlutum. Inflúensan er hlutfallslega algengari meðal 60 ára og eldri, meðalaldurinn er 63 ár hjá þeim sem greinst hafa frá því í nóvember. Inflúensan var fyrr á ferðinni á höfuðborgarsvæðinu en á síðustu vikum hefur inflúensan farið hægt vaxandi á landsbyggðinni. Frá því í byrjun desember hafa alls 95 einstaklingar legið á Landspítala vegna inflúensu, flestir yfir 70 ára, þar af greindist 21 í síðustu viku sem er aukning borið saman við vikurnar á undan.

Inflúensan er útbreidd í samfélaginu, sennilega er hún í hámarki núna og gera má ráð fyrir að tilfellum fækki á næstu vikum. Inflúensa A(H3N2) er sá stofn sem hefur verið í dreifingu, en ekki er útilokað að inflúensa A(H1N1) eða inflúensa B eigi eftir að koma í kjölfarið á næstu vikum.

Þeim fjölgar sem sem greinast með staðfesta Respiratory Syncytial veirusýkingu (RSV) en hún hefur greinst hjá alls 114 einstaklingum frá því í byrjun október, þar af 19 í síðustu viku sem er svipaður fjöldi og hefur greinst á síðastliðnum vikum. Það má því gera ráð fyrir að RSV sé í dreifingu í samfélaginu. Börn á fyrsta og öðru aldursári greinast hlutfallslega oftast með RSV en veiran hefur einnig verið staðfest hjá öðrum aldurshópum, einkum meðal aldraðra, sem ásamt ungabörnum er þekktur áhættuhópur. Þá er fjöldi tilkynninga frá heilsugæslunni og bráðamóttökum um niðurgang eins og gera má ráð fyrir á þessum árstíma.

annska@bb.is

DEILA