Hæpið að tala um lélega kjörsókn sjómanna

Þátttaka í atkvæðagreiðslu sjómanna um kjarasamningin getur ekki talist lág að mati Sjómannasambands Íslands. Eftir atkvæðagreiðslu um kjarasamning sjómanna og útvegsmanna hefur verið nokkur umræða um þátttökuna í atkvæðagreiðslunni og því haldið fram að þátttakan hafi verið léleg þar sem 53,7% þeirra sem voru á kjörskrá tók þátt í kosningunni. Tíminn sem menn höfðu til að greiða atkvæði var stuttur, en sjómenn voru í verkfalli og því flestir tiltækir enda gat deilan leysts með stuttum fyrirvara.

Að mati Sjómannasambands Íslands er hæpið að tala um lélega kjörsókn í atkvæðagreiðslunni þegar kjörsókn er borin saman við fyrri atkvæðagreiðslur.

Áður en sjómenn samþykktu kjarasamninginn höfðu þeir tvívegis fellt samninga. Í ágúst lauk mánaðarlangri atkvæðagreiðslu um kjarasamning sem var undirritaður í júní. Kjörsókn var 38,5% og sjómenn felldu samninginn með 66% atkvæða.

Atkvæðagreiðsla um verkfall var mánaðarlöng og lauk þann 17. október með 54,2% þátttöku og var verkfall samþykkt með miklum meirihluta atkvæða.

Þann 14 nóvember var undirritaður annar kjarasamningur og atkvæðagreiðslu sjómanna lauk með 60,4% þátttöku þar sem samningarnir voru felldir.

Að framansögðu segir Sjómannasambandið að það teljist hæpið að tala um dræma þátttöku í atkvæðagreiðslu sjómanna um helgina.

smari@bb.is

DEILA