Góa gengin í garð

Góumánuður hófst í gær á konudaginn, en góa kallast fimmti og næstsíðasti mánuður vetrar að forníslensku tímatali. Hún tekur við af þorranum og hefst á sunnudegi á bilinu 18.-24. febrúar og stendur þar til einmánuður tekur við. Þorrinn og góan þóttu erfiðastir vetrarmánaðanna, bæði vegna þess að þá reis veldi vetur konungs hve hæst í vályndum veðrum og frosthörkum og ekki síður vegna þess að þá var oft farið að ganga á matarbirgðir á bæjum. Konudagur markar upphaf góu og eru fyrstu skjalfestu heimildir um þann ágæta dag frá miðri 19. öld, en gæti þó heitið verið talsvert eldra í talmáli. Á konudaginn fá konur gjarnan blóm frá mökum sínum, en sá siður hefur tíðkast allt frá því er blómasalar tóku að auglýsa konudagsblóm um miðjan sjötta áratug síðustu aldar.

Óvíst er hvað orðið merkir upphaflega en orðsifjafræðingar hallast helst að því að það eigi eitthvað skylt við snjó, sem fellur vel að stöðu hennar í ævintýralegri fornaldarsögu, þar sem faðir Góu er Þorri, afi hennar heitir Snær og langafinn Frosti en föðursystur Mjöll og Drífa. Þar er nafn hennar reyndar Gói. Eftir þeirri sögu strauk Gói brott með strák á Þorrablóti einu. Þorri lét halda blót til að leita um það frétta hvar hún væri niður komin. Það kölluðu þeir Góiblót. Seinna breyttist nafnmyndin úr Gói í Góa og er hún gjarnan persónugerð sem vetrarvættur í gömlum sögnum.

Í almennri þjóðtrú skipti góuveðrið máli. Átti sumarið að verða gott ef góa væri stormasöm og veður vont fyrstu góudaga og reynist það rétt megum við kannski búa okkur undir leiðinda tíð í sumar, þar sem veður við upphaf góu í ár er sérlega gott. Ýmsar veðráttuspár geymast í gömlum íslenskum vísum og eru margir sem enn styðjast við gamlar vísur í alþýðuveðurspám. Ein vísan um góu er svohljóðandi:

Ef hún Góa öll er góð,

öldin má það muna,

þá mun Harpa hennar jóð

herða veðráttuna.

Sighvatur Árnason fyrrverandi alþingismaður, gerði athuganir á því hvernig ýmsir veðráttuspádómar hefðu reynst á árunum 1840-1900 og skrifaði um það í Skírni 1907. Þar segir hann um þennan veðráttuspádóm: Þau árin, 6 að tölu, á þessu árabili, sem Góan var einmuna góð, stundum greri jörð, þá rættist þetta þannig, að tíðarfarið breyttist alltaf til hins verra á næstu mánuðum (Einmánuði og Hörpu) en þó einkum 3 árin í alvarleg harðindi.

Heimildir eru fengnar af Vísindavefnum og Wikipediu.

DEILA