Frístundaferðir milli Bolungarvíkur og Ísafjarðar

Rútan stoppar m.a. við Árbæ í Bolungarvík.

Í gær hófst akstur frístundarútu milli Bolungarvíkur og Ísafjarðar. Ferðirnar eru eingöngu ætlaðar börnum og unglingum frá Bolungarvík og Ísafirði vegna þátttöku þeirra í skipulögðu tómstundastarfi. Ferðirnar eru ekki ætlaðar almenningi, og ræður þar m.a. gildandi sérleyfi á leiðinni og að um almenningssamgöngur gilda ákveðnar reglur. Stoppistöðvar eru við Íþróttamiðstöðina Árbæ í Bolungarvík, Íþróttahúsið á Torfnesi á Ísafirði og aðal stoppistöð strætó á Ísafirði í Pollgötu.

Fargjald verður ekki innheimt að svo stöddu en frístundarútan er tilraunaverkefni sem mun standa út maí 2017 og verður verkefnið þá endurskoðað fyrir næsta vetur. Uppsetning stundaskráa í frístundastarfi í Bolungarvík og á Ísafirði verður þá einnig endurskoðuð með hliðsjón af ferðum frístundarútu.

„Markmiðið með frístundarútu er að bæta þjónustu við börn og unglinga sem stunda íþróttir og aðrar tómstundir í Bolungarvík og á Ísafirði og minnka álag á foreldra og aðstandendur. Ef vel gengur verður frístundarútan afar hagkvæm frá samfélagslegu sjónarmiði, sparar tíma og óþægindi meðal iðkanda og aðstandenda þeirra og minnkar akstur verulega, segir Jón Páll Hreinsson, bæjarstjóri Bolungarvíkurkaupstaðar í tilkynningu

Vestfirskar ævintýraferðir ehf. annast aksturinn samkvæmt samningi en Bolungarvíkurkaupstaður og Ísafjarðarbær standa að verkefninu.

Áætlun rútunnar

smari@bb.is

DEILA