Fiskiskipum fækkar

Mynd úr safni

Flest fiskiskip á landinu eru skráð á Vestfjörðum en fiskiskipum á landinu hefur fækkað á milli ára. Á Vestfjörðum voru við lok síðasta árs skráð 396 fiskiskip og hefur þeim fækkað um fimm frá árslokum 2015 er þau voru 401. Alls voru 1.647 fiskiskip á skrá hjá Samgöngustofu í lok árs 2016 og hafði þeim fækkað um 16 frá árinu áður. Fjöldi vélskipa var alls 747 og samanlögð stærð þerra um 94.506 brúttótonn. Vélskipum fækkaði um 9 á milli ára, þar af um tvö á Vestfjörðum, en stærð flotans jókst um 2.439 brúttótonn. Togarar voru alls 43 og fækkaði um þrjá frá árinu á undan, tveir þeirra af Vestfjörðum. Heildarstærð togaraflotans var 52.416 brúttótonn og hefur minnkað um 904 tonn frá árslokum 2015. Opnir fiskibátar voru 857 og 4244 brúttótonn að stærð. Opnum fiskibátum fækkaði um tvo á milli ára og samanlögð stærð minnkaði um 1 brúttótonn.

Flest fiskiskip voru með skráða heimahöfn á Vestfjörðum í árslok 2016, alls 396 skip, en það eru 24% fiskiskipaflotans. Næst flest, alls 294 skip höfðu heimahöfn skráða á Vesturlandi eða 17,8%. Fæst skip voru með skráða heimahöfn á Suðurlandi, 80 alls, en það samsvarar 4,9% af heildarfjölda fiskiskipa. Opnir bátar voru flestir á Vestfjörðum, 232, og á Vesturlandi 167. Fæstir opnir bátar höfðu heimahöfn á Suðurlandi, alls 23. Vélskip voru einnig flest á Vestfjörðum, 160, en fæst á Höfuðborgarsvæðinu, 44 skip. Flestir togarar höfðu skráða heimahöfn á Norðurlandi eystra, alls 9, en 8 togarar á höfuðborgarsvæðinu. Fæstir togarar voru skráðir á Vesturlandi, alls þrír.

Frá þessu var greint á vef Hagstofunnar þar sem nálgast má talnaefni um fiskiskipaflotann.

annska@bb.is

DEILA