Er friður í boði í viðsjálli veröld?

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Mér gafst kostur á að sækja friðarráðstefnuna „World Summit 2017“ í Seoul í Suður Kóreu í byrjun febrúar. Yfirskrift ráðstefnunnar var: friður,öryggi og jöfnun lífskjara. Að ráðstefnunni standa alþjóðleg friðarsamtök og alþjóðlegt samband þingmanna fyrir friði. SunHak-friðarverðlaunin eru kennd við upphafsmenn þessara samtaka sem eru hjónin Dr. Sun Myung Moon og Dr.Hak Ja Han Moon, eftirlifandi kona hans.

Margt má segja um mikla upphafningu þessara einstaklinga á þeirra heimaslóðum í Suður Kóreu en eitt er víst að friðarboðskapurinn einn og sér er vel þess virði að hafa verið meðal þátttkenda í þessum fjölmenna fundi ólíkra fulltrúa víðsvegar að úr heiminum sem koma saman til að hlusta á sjónarmið hvers annars.

Markmiðið með ráðstefnunni er mjög gott. Það felur í sér samveru og samtal fulltrúa fulltrúa frá ólíkum þjóðum og menningarheimum sem koma saman til þess að leita leiða til að hindra stríðsátök og fátækt og einnig til að berjast saman fyrir bættum lífskjörum fátækra þjóða, aukinni menntun, jöfnuði og jafnrétt kynjanna.

Friðarverðlaun

Friðarverðlaunin í ár fengu 2 einstaklingar sem hafa tileinkað líf sitt lækningum , hjálparstarfi og menntun á stríðshrjáðum svæðum. Dr. Gino Strada skurðlæknir frá Ítalíu sem veitt hefur yfir 4 milljónum einstaklinga læknis- og neyðaraðstoð á stríðsátaka svæðum og Dr. Sakena Yacoobi kennari og baráttukona sem helgað hefur líf sitt réttindum og menntun barna og kvenna í Afganistan. Þegar ég hlustaði á ræður þess tveggja einstaklinga og kynningu á lífsstarfi þeirra veitti það manni trú á að mannkyninu er viðbjargandi og að það góða sigrar það illa að lokum. Fjöldi framsögumanna héldu innihaldsríkar ræður þar sem ræddur var flóttamannavandinn, stríðsátökin og þau sem ná ekki eyrum alþjóðafjölmiðla og fátæktina sem færist á milli kynslóða og bága stöðu kvenna og barna í mörgum löndum.

Mér gafst kostur á að flytja ræðu um frið,stöðu kvenna og jafnrétt á Íslandi á kvöldverðarfundi þingkvenna sem byggja upp tengslanet um frið og stöðu kvenna og fjölskyldna í heiminum.

Margar magnaðar ræður voru fluttar þar sem miklar tilfinningar brutust fram um ástandið í viðkomandi landi eins og allar hörmungarnar í Sýrlandi, flóttamannabúðir í Líbíu, stjórnmálaástandið og átökin í Tyrklandi og í Úkraínu svo eitthvað sé nefnt. Eins var það áhrifaríkt þegar þingmaður Norður Kóreu ávarpaði ráðstefnuna og kallaði eftir friði á milli Norður og Suður Kóreu og sagði að hin miklu mótmæli á götum úti gegn spillingu tengdum ríkisstjórn Suður Kóreu hefðu aldrei verið leyfð í sínu landi þar sem ekkert lýðræði ríkti.

Ekki er friðvænlegt

Ástandið í heiminum er ekki friðvænlegt með stórhættulegan rugludall sem forseta í Bandaríkjunum, valdamesta ríki heims. Forseta sem er spilltur auðjöfur og vill reisa girðingar á milli þjóða,mismuna á grundvelli trúarbragða og haldinn er kvenfyrirlitnigu.

Nýjasta útspil Donalds J. Trump forseta Bandaríkjanna er komubann til Bandaríkjanna á íbúa sjö landa múslimaríkja sem trúlega reynist stjórnarskrábrot. Þar er kynnt undir hatri á grundvelli kynþáttafordóma og trúarbragðaskoðana og kyndir undir stríðsátökum í heiminum.

Ekki má gleyma að minnast á stríðsátökin í hinum fátækari ríkjum Afríku sem vilja oft gleymast þar sem ekki eru undirliggjandi hagsmunir stóveldanna og auðlindir í fátækum ríkjum sem auðhringir hafa sölsað undir sig.. Við hér heima á Íslandi erum svo lánsöm að vera herlaust land og friðsöm þjóð þó sá ljóður sé á að vera enn þá í hernaðarbandalaginu Nató.

Vinstri græn með Steingrím J Sigfússon sem fyrsta flutningmann hafa lagt fram tillögu um kjarnorkufriðlýsingu Norðurslóða og mikilvægt er að við tökum skýlausa afstöðu þar og séum leiðandi í málefnum Norðurslóða en Ari Trausti Guðmundsson er formaður nefndar um Norðurskautsmál .

Ísland á að vera leiðandi í allri friðarumræðu og gera sig gildandi. Þótt lítið land sé þá getum við lagt okkar af mörkum til þess að stuðla að friðvænlegri heimi.

Það er horft til Íslands sem lýðræðisríkis sem hefur náð góðum árangri í mannréttindum,kvenfrelsi og sem velferðar samfélag þó alltaf megi sannarlega gera betur. Við eigum að láta í okkur heyra hvar sem er og hvenær sem er til þess að leggja okkar að mörkum á vogarskál friðar í heiminum.

Lilja Rafney Magnúsdóttir alþingismaður.

DEILA