Engir samningafundir boðaðir

Ekki er útlit fyrir að samninganefndir sjómanna og útvegsmanna setjist að samningaborðinu á næstunni. Deiluaðilar hittust á fundi hjá Ríkissáttasemjarar á föstudag og í þeirri stöðu sem deilan er í dag er ekki líklegt að samninganefndir hittist aftur fyrr en eftir tæpar tvær vikur, en eins og kunnugt er ber ríkissáttasemjara að boða aðila deilunnar til sáttafundar innan tveggja vikna frá því síðast var funda.

Ákall um ríkisvaldið beiti sér í deilunni verður sífellt háværara. Stjórnmálamenn hafa ekki viljað segja beint út að þeir styðji lagasetningu á verkfallið. Í Morgunútvarpi Rásar 2 í morgun sagði Páll Magnússon, þingmaður Sjálfstæðisflokksins að hann væri ekki talsmaður lagasetningar á deiluna en hins vegar vildi hann ekki útiloka að ríkisvaldið grípi inn í með einhverjum öðrum hætti en lagasetningu. „Stjórnvöld geta ekki látið þessa auðlind þjóðarinnar liggja óbætta hjá garði. Það er bara óraunsæi og ég veit svo sem ekki hvern menn eru að blekkja með því ef þeir eru að halda því fram að það sé hægt eða að staðhæfa það að það verði ekki undir neinum kringumstæðum gripið inn í þessa kjaradeilu,“ sagði Páll í morgun.

smari@bb.is

DEILA