Dagur leikskólans í dag

Frá leikskólanum Sólborg á Ísafirði.

Dagur leikskólans er haldinn hátíðlegur í leikskólum landsins og er þetta í tíunda sinn sem haldið er upp á daginn. 6.febrúar er merkur dagur í leikskólasögunni hér á landi, því á þessum degi árið 1950 stofnuðu frumkvöðlar leikskólakennara fyrstu samtök sín. Út um allt land er haldið upp á daginn með einhverjum hætti, margir leikskólar hafa opið hús og eða vekja athygli á starfi sínu með einum eða öðrum hætti. Hægt er að skoða og setja inn myndir á viðburðasíðu Dags leikskólans á Facebook, myllumerkið er #dagurleikskolans2017.

Samstarfshópur um Dag leikskólans efnir til hátíðarhalda í leikskólanum Hofi við Gullteig í Reykjavík klukkan 13:30. Þar mun Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, afhenda hvatningarverðlaunin Orðsporið, sem veitt hafa verið þeim sem hefur þótt skara fram úr í að efla orðspor leikskólans og eða hefur unnið ötullega í þágu leikskóla. Orðsporið var fyrst veitt árið 2013 og þá fékk Súðavíkurhreppur það fyrir að veita gjaldfrjálsan leikskóla í sveitarfélaginu.

annska@bb.is

DEILA