Bollywood-mynd tekin upp í Holti

Holt í Önundarfirði. Mynd: Ágúst Atlason.

Eftir helgina hefst undirbúningsvinna við tökur á Bollywood-mynd, sem verður meðal annars tekin upp vestur á fjörðum. Á bilinu 40-50 manns munu starfa við kvikmyndatökurnar og flestir koma þeir frá Indlandi. Stærsti hluti myndatökunnar verður í Holti í Önundarfirði en einnig verða teknar upp senur á flugvellinum á Ísafirði og á nokkrum öðrum stöðum í grenndinni.

Maðurinn á bak við komu kvikmyndagerðarmanna vestur er Ágúst Atlason, ljósmyndari á Ísafirði með meiru, en framleiðandi myndarinn er Búi Baldvinsson hja Hero Production.

„Snemma á þessu ári hafði Búi Baldvinsson hjá Hero Production samband við mig og sagðist vera að leita að staðsetningu fyrir Bollywood-mynd. Til greina kom að vera á Norðurlandi eða á Vestfjörðum og ég náði að selja þeim Vestfirði og Holt sem tökustað,“ segir Ágúst.

Myndin er ekki dæmigerð Bollywood-mynd þar sem söguhetjur bresta í söng og dans af minnsta tilefni. „Myndin er án dans- og söngatriða og verður í hryllingsmyndastíl og er verið að reyna nýja hluti í Bollywoodsenunni,“ segir Ágúst.

Hluti kvikmyndagerðarmanna gistir í Friðarsetrinu í Holti og hluti á Núpi í Dýrafirði. „Kvikmyndatökuliðið mun vera hérna fyrir vestan í kringum 25 daga. Þetta er annað verkefnið sem ég hef náð hingað vestur, en í fyrra kom hingað lítil teymi ljósmyndara að mynda fyrir Volvo bílana. Ljóst er að þetta er uppgrip á annars rólegum tímum hérna fyrir vestan og ég vonast til að ná fleirum meðalstórum verkefnum hingað í framtíðinni,“segir Ágúst.

smari@bb.is

DEILA