Bankar halda fasteignaverði niðri

Húsnæðisskortur er víða landsbyggðinni og þrátt fyrir það hefur fasteignaverð ekki hækkað í samræmi við eftirspurnina. Fjallað er um málið í Fréttablaðinu í dag. Þóroddur Bjarnason, prófessor við Háskólann á Akureyri og fyrrv. stjórnarformaður Byggðastofnunar, tekur Bíldudal sem dæmi, en þar hefur um nokkurt skeið verið uppgangur í atvinnulífinu. „Bankarnir, sérstaklega Íbúðalánasjóður, hafa verið rosalega tregir. Ef þú kemur með kaupsamning sem er með hærra verði en hugmynd bankans um hvað hús á þessu svæði kostar, þá neita þeir að viðurkenna hann. Vítahringurinn sem þú situr svo fastur í er að á meðan fasteignaverðið er lægra en byggingakostnaðurinn þá byggir enginn.“

Friðbjörg Matthíasdóttir, starfandi sveitarstjóri í Vesturbyggð, nefnir dæmi um fasteignakaup á Bíldudal. „Jafnvel þó komið væri á samkomulag á milli seljanda og kaupanda upp á 20 milljónir þá sagði bankinn að honum þætti húsið ekki meira virði en 15 milljónir og lánaði þá bara fyrir því.“ Undanfarið hafa ýmis störf verið auglýst í Vesturbyggð en húsnæðisskortur er viðvarandi. „Það er dálítið erfitt að horfa upp á að það vantar húsnæði fyrir íbúa en á meðan sjáum við góð fjölskylduhús notuð sem sumarhús í eina til tvær vikur á ári.“

smari@bb.is

DEILA