Anna Lind kynnir meistararitgerð sína í Vísindaporti

Anna Lind Ragnarsdóttir, skólastjóri Súðavíkurskóla er gestur Vísindaportsins þessa vikuna

Skólamál verða í brennidepli í Vísindaporti vikunnar í Háskólasetri Vestfjarða. Anna Lind Ragnarsdóttir, skólastjóri Súðavíkurskóla, flytur erindi sem byggir á spánýrri meistararitgerð hennar frá Háskóla Íslands. Þar varpar hún ljósi á uppeldisstefnuna Uppeldi til ábyrgðar í skólum og skoðar hvort hún geti verið leiðbeinandi fyrir samstarf við heimilin og samfélagið.

Undanfarin ár hafa grunnskólar leitast við að innleiða ýmsar uppeldisstefnur eða aðferðir til að betrumbæta allt skólastarf. Hvort sem vinna á með betri samskipti, agamál, starfshætti, líðan eða námsáhuga þá eru ýmsar leiðir færar og af nógu að taka. Meginniðurstöður Önnu Lindar benda til þess að stefnan Uppeldi til ábyrgðar sé vel til þess fallin að styrkja samstarf heimila, skóla og samfélags, einkum með stuðningi við foreldra í uppeldishlutverkinu og til þess að hafa jákvæð áhrif á gildi í samfélaginu. Þó má styrkja það enn frekar með því að leggja aukna áherslu á þátttöku foreldra í skólastarfinu og í ákvarðanatöku þeirra um nám barna sinna.

Anna Lind er fædd og uppalin í Súðavík, yngst sex systkina. Hún stundaði nám í unglingadeild Héraðsskólans í Reykjanesi og var eitt ár við Fjölbrautarskólann á Sauðárkróki en gerði þá hlé á skólagöngu. Hún lauk svo stúdentsprófi í kvöldskóla Menntaskólans á Ísafirði árið 1991. Hún útskrifaðist með kennarapróf úr fjarnámi við Kennaraháskóla Íslands árið 1996 og var það í fyrsta sinn sem KÍ útskrifaði nema úr fjarnámi á Vestfjörðum. Anna Lind tók við stöðu skólastjóra Súðavíkurskóla árið 1998 og hefur gegnt því starfi allar götur síðan. Þar fer fram kennsla jafnt á leikskóla- sem grunnskólastigi. Anna Lind lauk diplómanámi í stjórnun menntastofnana árið 2008 og mun í febrúar útskrifast með M.Ed. gráðu frá Háskóla Íslands.

Vísindaportið stendur frá kl. 12.10-13.00 í kaffistofu Háskólaseturs Vestfjarða og er öllum opið. Fyrirlestur vikunnar fer fram á íslensku.

annska@bb.is

DEILA