Málþing um menningartengda ferðaþjónustu á Hólmavík

Náttúrubarnaskólinn er meðal þess sem fjallað verður um á málþinginu. Mynd af Fésbókarsíðu skólans.

Málþing um menningartengda ferðaþjónustu verður haldið á Restaurant Galdri á Hólmavík á morgun, fimmtudag. Á málþinginu láta bæði heimamenn á Ströndum og nemendur í hagnýtri menningarmiðlun við Háskóla Íslands ljós sitt skína og segja frá margvíslegum verkefnum. Málþingið er haldið í tengslum við heimsókn háskólanema í námskeiðinu Menningartengd ferðaþjónusta, en þeir dvelja tvær nætur á Ströndum, þar sem þeir skoða sig um, heimsækja söfn, sýningar og sögustaði.

Meðal fyrirlesara á málþinginu eru Skúli Gautason menningarfulltrúi Vestfjarða sem fjallar um uppbyggingu menningartengdrar ferðaþjónustu á Vestfjörðum, Esther Ösp Valdimarsdóttir mannfræðingur og tómstundafulltrúi Strandabyggðar sem fjallar um bæjarhátíðina Hamingjudaga og fleiri hátíðahöld í Strandabyggð, Hafdís Sturlaugsdóttir landnýtingarfræðingur sem fjallar um menningarverkefni á vegum Náttúrustofu Vestfjarða og Dagrún Ósk Jónsdóttir þjóðfræðingur sem fjallar um Náttúrubarnaskólann. Einnig flytja nemendur í hagnýtri menningarmiðlun fjórar kynningar á verkefnum sem þeir hafa unnið í tengslum við námskeiðið syðra. Málþingið er opið öllum sem áhuga hafa, það hefst klukkan 12:10 og verður súpa frá Restaurant Galdri á boðstólum.

Það er Rannsóknasetur HÍ á Ströndum – Þjóðfræðistofa sem stendur fyrir móttöku hópsins og málþinginu í samvinnu við Strandagaldur og Sauðfjársetur á Ströndum. Frá þessu var greint á Strandavefnum.

annska@bb.is

DEILA