Vísitala neysluverðs lækkar

Vísitala neysluverðs miðuð við verðlag í janúar 2017 er 436,5 stig (maí 1988=100) og lækkar um 0,57% frá fyrri mánuði. Vísitala neysluverðs án húsnæðis er 388,0 stig og lækkaði hún um 1,20% frá desember 2016. Þetta kemur fram í frétt á vef Hagstofu Íslands og segir þar jafnframt að nú séu vetrarútsölur víða í gangi og hafi verð á fötum og skóm lækkað um 10,0% (áhrif á vísitölu -0,42%), verð á húsgögnum og heimilisbúnaði lækkað um 10,3% (-0,15%) og verð á raftækjum lækkað um 14,9% (-0,11%). Verð á nýjum bílum lækkaði um 3,4% (-0,20%) og flugfargjöld til útlanda lækkuðu um 12,2% (-0,13%).

Kostnaður við búsetu í eigin húsnæði (reiknuð húsaleiga) hækkaði hins vegar um 1,3% (0,22%) og verð á bensíni og olíum hækkaði um 3,8% (0,14%) milli mánaða. Síðastliðna tólf mánuði hefur vísitala neysluverðs hækkað um 1,9% en vísitalan án húsnæðis hefur lækkað um 0,9%.

Vísitala neysluverðs samkvæmt útreikningi í janúar 2017, sem er 436,5 stig, gildir til verðtryggingar í mars 2017. Vísitala fyrir eldri fjárskuldbindingar, sem breytast eftir lánskjaravísitölu, er 8.619 stig fyrir mars 2017.

annska@bb.is

DEILA