Um 100 umsóknir bárust

Frestur til að sækja um styrk í Uppbyggingarsjóð Vestfjarða rann út á miðnætti á mánudag. Að þessu sinni bárust um 100 umsóknir, sem er heldur minna en á síðasta ári er þær voru um 130. Nú tekur við úrvinnsla og mat á umsóknum hjá úthlutunarnefnd sjóðsins og er niðurstaða að vænta í lok febrúar. Til ráðstöfunar í úthlutun eru um 65 milljónir að þessu sinni.

Uppbyggingarsjóðurinn var stofnaður árið 2015 og tók hann við hlutverki Menningarráðs Vestfjarða og Vaxtarsamnings Vestfjarða. Sjóðurinn er hluti af samningi íslenska ríkisins og Fjórðungssambands Vestfirðinga um Sóknaráætlun Vestfjarða 2015-2019. Úr sjóðnum eru veittir stofn- og rekstrarstyrkir til menningarstofnana, verkefnastyrkir til menningarmála og verkefnastyrkir til atvinnuþróunar- og nýsköpunarverkefna.

annska@bb.is

DEILA