Svara erindum hratt og vel

Jónas Þór Birgisson bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins er ósáttur við viðbrögð bæjarstjórnar við fyrirspurnum. Í bókun hans á fundi bæjarráðs fyrr í vikunni kemur fram að hann hafi ekki fengið formleg svör við fyrirspurnum sem hann lagði fram í september og nóvember í fyrra og segir það óviðunandi. Fyrirspurnirnar varða þann kostnað sem fallið hefur á sveitarfélagið vegna hönnunarsamkeppninnar um Sundhöll Ísafjarðar og hverjir hafi fengið greiðslur.

Í bókun Jónasar segir orðrétt „Það er mikilvægt að stjórnsýsla bæjarins svari erindum hratt og vel og á það ekki hvað síst við þegar um skipulagsmál er að ræða. Að sama skapi er mjög mikilvægt að bæjarstjóri svari eins hratt og unnt er fyrirspurnum frá bæjarfulltrúum. Að mati undirritaðs er eitt mikilvægasta hlutverk bæjarfulltrúa í minnihluta að veita meirihlutanum aðhald. Byggist það ekki síst á því að koma til bæjarbúa upplýsingum um hvernig farið er með fjármuni þeirra og í því samhengi gegna formlegar fyrirspurnir bæjarfulltrúa og formleg svör bæjarstjóra lykilhlutverki.“

bryndis@bb.is

DEILA