Skoðar lausnir til að berjast gegn landrofi

Brian Gerrity á Ísafirði síðasta vor. Mynd af vef UW: Kristin Weis.

Brian Gerrity, nemandi í haf- og strandsvæðastjórnun við Háskólasetur Vestfjarða, vinnur nú að meistaraprófsverkefni þar sem hann fjallar um lausnir til að berjast gegn landrofi sjávar í heimabæ sínum Half Moon Bay í Kaliforníu. Á næstu vikum mun hann skila lokaritgerðinni og verja hana í framhaldinu. Þótt verkefninu sé ekki að fullu lokið hefur það nú þegar vakið athygli í heimabæ Brians. Í síðustu viku fjallaði blaðið Half Moon Bay Review um verkefnið og þau vandamál sem stafa af landrofi á svæðinu.

Frá þessu er sagt á vef Háskólaseturs Vestfjarða og þar segir jafnframt að verkefni Brians sé gott dæmi um það hvernig rannsóknir nemenda í haf- og strandsvæðastjórnun geta haft áhrif á viðfangsefni sem fengist er við á strandsvæðum bæði í byggð og óbyggðum.

Brian Gerrity mun síðar á árinu verja ritgerð sína og það munu einnig gera fleiri nemendur úr 2015 árgangi meistaranámsins. Á vef Háskólasetursins verður komið á framfæri fréttum af hverri vörn fyrir sig áður en þær eiga sér stað.

annska@bb.is

DEILA