Skoða opnun flugbrautar á ný

Flugbrautir á Reykjavíkurflugvelli.

Unnið er að því að skoða hvort hægt sé að opna flugbraut á Keflavíkurflugvelli sem hefur hliðstæða stefnu og svokölluð neyðarbraut á Reykjavíkurflugvelli. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Innanríkisráðuneytinu í kjölfar fjölmiðlaumfjallana um lokun neyðarbrautar og mögulega notkun hennar til sjúkraflugs.

Í tilkynningunni segir að flugbraut 06-24 á Reykjavíkurflugvelli hafi verið lokað í kjölfar dóms Hæstaréttar um að brautinni skyldi lokað en dómurinn féll vegna málshöfðunar Reykjavíkurborgar á hendur ríkinu þar sem lokunar var krafist.
„Flugbraut með hliðstæða stefnu á Keflavíkurflugvelli, 07-25, hefur verið lokuð undanfarin ár en nú er til skoðunar hvort unnt verður að opna hana á ný. Vilji innanríkisráðherra til þess að opna þá flugbraut í stað hinnar lokuðu brautar á Reykjavíkurflugvelli er skýr,“ segir í tilkynningunni.

Að ósk ráðuneytisins setti Isavia ohf. fram í haust áætlun um kostnað við að opna flugbaut 07-25 á Keflavíkurflugvelli og setti fram þrjá kosti. Í ráðuneytinu er nú farið yfir þessa möguleika og metið hvort og hvaða leið unnt er að fara með tilliti til kostnaðar og mögulegra fjárveitinga til verkefnisins.

brynja@bb.is

DEILA