Skattheimta, sveitarfélög og almannahagur.

Pétur G. Markan

Héraðsmiðillinn BB gerir að fréttaefni bókun mína frá 35. sveitarstjórnarfundi Súðavíkurhrepps, sem varðar lækkun á útsvarstekjum á milli ára. Það er afar þakkarvert að fjölmiðillinn skuli taka upp þessa umræðu.

Fyrirsögn BB er eftirfarandi: Skattsvik í Súðavík. Það skal árétta að orðið “skattsvik,, í þessari umræðu er fært inn af ritstjóra BB, sem skrifar umrædda frétt. Ásakanir um lögbrot er framlag ritstjóra BB.

Það er ekkert í bókun sveitarstjóra sem kallar samborgarana skattsvikara.

Hins vegar er bent á þá vá sem fylgir því þegar að útsvarstekjur lækka. Margs konar skýringar geta verið á bakvið slíka þróun. Í tilfelli Súðavíkurhrepps, og þetta er veruleiki allra sveitarfélaga á landinu, verður sveitarfélagið af miklum tekjum vegna einkaneyslu, sem tekin er í gegnum fyrirtæki, í stað þess að greiða starfsmönnum hærri laun, sem aftur skilar sér í meira framlagi til samneyslu samfélagsins.

Það er val þeirra sem kjósa að stýra eiginrekstri í gegnum einkahlutafélag að greiða lægri laun, og skila þess í stað meiri arði, sem síðan er skattlagður af ríkinu. Hins vegar er einn galli á gjöf Njarðar í því tilfelli og hann er að ríkið hefur þennan fyrirtækjaskatt fyrir sig sjálft, að nánast öllu leiti.

Kannski finnst lausnin í því að veita sveitarfélögum hlutdeilt í skattstofnun fyrirtækja. Sem væri þá mótvægi við þá fjármuni sem tapast í núverandi kerfi. Verðugt verkefni fyrir Samband íslenskra sveitarfélaga.

Sveitarfélag rekur sína þjónustu og velferð á skatttekjum. Ef þær dragast saman, dregst starfsemi sveitarfélagsins saman. Velferð og þjónusta við almenning minnkar. Ekkert ábyrgt sveitarfélag lætur þá staðreynd óhreyfða, ef skatttekjur þess dragast meira saman en eðlilegt getur talist. Þá er vegið að tilveru þess og velferð íbúa. Við því þarf að bregðast af ábyrgð, hreinskilni og festu.

Góð þjónusta við íbúa, öflugir skólar og styðjandi velferð í sveitarfélögum er almannahagur. Sé vegið að þessum atriðum er það skylda þeirra sem standa í stafni sveitarfélagana að vekja athygli á því og vinna markvisst gegn því. Með þetta að leiðarljósi skal lesa bókun sveitarstjóra frá 35. fundi sveitarstjórnar Súðavíkurhrepps. Hugmyndin er ekki að hengja neinn, hitt heldur, að standa vörð um almenning.

Pétur G. Markan
Sveitarstjóri Súðavíkurhrepps

DEILA