Ný jógastöð opnuð á Mávagarði

Gunnhildur Gestsdóttir jógakennari

Jógastöð Gunnhildar Gestsdóttir á Ísafirði hefur nú opnað á nýjum stað. Stöðin er nú til húsa við Mávagarð og er hún í innsta húsi þeirra þriggja nýbygginga sem þar hafa risið. Blaðamaður heimsótti Gunnhildi á nýja staðinn sem er afar vistlegur og með útsýni sem Ameríkanar myndu kalla milljón dollara, þar sem höf og fjöll Skutulsfjarðar, Ísafjarðardjúp og Snæfjallaströnd blasa við í allri sinni dýrð. Aðstaðan rúmar allt að tuttugu iðkendur hverju sinni og kenna þar jóga Gunnhildur sjálf, Aðalheiður Jóhannsdóttir og Jenný Jensdóttir.

Óhætt að segja að á skömmum tíma hafi möguleikar íbúa á norðanverðum Vestfjörðum til jógaiðkunar aukist til muna, en lengi vel var einungis einn kennari sem bauð upp á jógatíma. Gunnhildur segist afar ánægð með að hafa fengið þær Jennýju og Aðalheiði til liðs við sig og með þessu samstarfi megi bjóða upp á jógaiðkun fimm daga vikunnar og suma daga fleiri en einn tíma. Tímafjöldi Jógastöðvarinnar hefur því farið úr tveimur opnum tímum á viku í sex. Einnig kenna þær jóga á leikskólunum á Ísafirði, Grunnskólanum á Ísafirði og á Hlíf.

Kennt er á ýmsum tímum. Fyrir þá árrisulu er boðið upp á jóga á þriðjudagsmorgnum klukkan 6:15, á mánudögum er jóga í hádeginu, síðdegistímar eru á þriðjudögum, miðvikudögum og fimmtudögum og einnig er kennt á laugardögum. Stundaskrána má nálgast hér. Fyrir þá sem vilja prófa en hafa litla reynslu af jógaiðkun verður fljótlega boðið upp á sérstakt byrjendanámskeið, slíkt var einnig á haustönn, sem og námskeið í meðgöngujóga, en vonir standa til að boðið verði upp á það aftur á vorönn.

Aðspurð um ávinning þess að stunda jóga svarar Gunnhildur „Jóga er stundað um allan heim í þeim tilgangi að auka heilbrigði og andlegan þroska hvers einstaklings. Jóga er ætlað að þjálfa og sameina líkama og huga. Með því ræktum við heilbrigði í huga og á líkama og þannig leitumst við við að lifa í sátt við umheiminn og njóta lífsins til fulls. Lifa núna.“

Jógastöðin er í innstu nýbyggingunni við Mávagarð á annarri hæð í öðru bili.

DEILA