Mugison tilnefndur til Króksins

Frá útgáfutónleikum Mugisons í Edinborg. Mynd: Þorsteinn Haukur Þorsteinsson.

Ísfirski tónlistarmaðurinn Örn Elías Guðmundsson, betur þekktur sem Mugison, er tilnefndur til Króksins tónlistarverðlauna Rásar 2. Veitt er sérstök viðurkenning til þess tónlistarmanns eða hljómsveitar sem skarað hefur fram úr í lifandi tónlist á árinu.

Í umfjöllun um Mugison segir „Mugison gaf út plötu á árinu eftir nokkuð hlé, hélt tónleika um allt land og endaði í Hörpu í Reykjavík með tvenna tónleika sem hlustendur Rásar 2 gátu notið síðastliðinn nýársdag. Með í för var hljómsveit þéttskipuð góðu tónlistarfólki sem náði að skila flóknum og stórum útsetningum plötunnar á aðdáunarverðan hátt. Mugison sjálfur sýndi svo enn og sannaði að hann er ekki bara fyrirtaks lagasmiður heldur einn af okkar bestu söngvurum.“

Verðlaunin kallast Krókurinn, og er nafnið vísun í Pétur Kristjánsson heitinn sem var þekktur fyrir magnaða sviðsframkomu. Þetta verður í þriðja sinn sem Krókurinn er veittur en áður hafa Dimma og Agent Fresco hlotið hann. Einnig eru tilnefnd Emmsjé Gauti, Of Monsters and Men og Soffía Björg.

brynja@bb.is

DEILA