Misskilningur um niðurgreiðslu raforku

Í tilkynningu frá Orkubúi Vestfjarða segir að misskilnings gæti um hækkanir gjaldskrár Orkubús Vestfjarða. Gjaldskrár Orkubús Vestfjarða hækkuðu 1. janúar síðastliðinn, fyrir dreifingu raforku hækkaði gjaldskráin um 7% og fyrir sölu um 4%. Niðurgreiðslur vegna húshitunar hækkuðu einnig þann 1. janúar og eiga þannig að draga þannig úr kostnaðaraukningu heimila.

Pétur G. Markan, sveitarstjóri í Súðavík, sagði í fréttum í gær að gjaldskrárhækkanir Orkubúsins ynnu gegn niðurgreiðslu ríkisins vegna húshitunarkostnaðar. „Auðvitað er það sárt þegar að niðurgreiðsla vegna húshitunarkostnaðar hækkar þurfi OV að hækka sína gjaldskrá á móti, sem er auðvitað ekkert annað en bein aðgerð til að taka hluta af ívilnun sem á að skila sér til íbúa svæðisins til sín. Á götumálinu myndi þetta heita að taka vont „cut“ af greiðslu ríkisins til íbúa svæðisns.“

Í tilkynningu frá Orkubúi Vestfjarða segir hins vegar að niðurgreiðslur ríkisins taki mið af verði dreifiveitna raforku og hækka því sem afleiðing af hækkun dreifiveitunnar. „Eftir að dreifiveitan hefur kynnt tillögur um hækkun fyrir Orkustofnun gerir stofnunin tillögur til iðnaðar- og viðskiptaráðherra, í samræmi við gjaldskrárhækkanirnar, en ráðherra ákveður niðurgreiðslurnar í samræmi við lögin.“

Þar segir að þar sem lög geri ráð fyrir að flutningur og dreifing raforku til húshitunar séu niðurgreidd að fullu þá hafi niðurgreiðslur vegna raforku til hitunar um sömu 66 aura og að ef „taxtar OV vegna dreifingar hefðu ekki verið hækkaðir þá hefðu niðurgreiðslur til notenda á Vestfjörðum ekkert hækkað, hvorki í dreifbýli né þéttbýli.“

brynja@bb.is

DEILA