Met í notkun tauga- og geðlyfja

Íslendingar nota mikið af tauga- og geðlyfjum.

Mest er notað af tauga- og geðlyfjum hér á landi þegar notkunin á Norðurlöndunum er skoðuð. Þetta kemur fram í Læknablaðinu. Svíþjóð er í öðru sæti en þar er notkun slíkra lyfja þó um 30% minni en á Íslandi. Einnig kemur fram að talsvert beri á því að lyfjafíklar rápi milli lækna, sem ekki noti lyfjagagnagrunn, til að fá sömu lyfin.

„Ávanabindandi lyf eru hluti tauga- og geðlyfja en þetta eru lyf eins og ópíóíðar, svefn- og róandi lyf, róandi og kvíðastillandi lyf, örvandi lyf og sum flogaveikilyf. Heilsugæslan ber hitann og þungann af ávísunum þessara lyfja og margir sjúklinganna glíma við erfið veikindi, þar með talið við lyfjafíkn,“ segir í greininni.

Koma megi í veg fyrir lyfjaráp með að nota lyfagagnagrunn þar sem sjúkraskrárkerfi eru samkeyrð, en enn beri á því að læknar noti ekki kerfið eða séu ekki komnir með aðgang að slíkum upplýsingum: „Þegar þetta ástand lagast mun álag á heilsugæsluna minnka og gagnsæi batna. Það er því mjög mikilvægt að allir læknar noti grunninn og fletti þar upp lyfjasögu sjúklings við minnsta grun um lyfjafíkn eða annars konar misferli með ávanabindandi lyf.“

brynja@bb.is

DEILA