Lestrarátak Ævars vísindamanns snýr aftur

Hafið er á ný lestrarátak Ævars vísindamanns, en því var hleypt af stokkunum fyrsta dag þessa nýja árs. Átakið hefur verið haldið tvisvar sinnum áður með þeim árangri að yfir 114 þúsund bækur voru lesnar. Því þótti Ævari Þór, leikara og rithöfundi, ærin ástæða til að halda áfram. Átakið stendur til 1. mars 2017 og er fyrir alla krakka í 1.-7. bekk.

Lestrarátakið virkar þannig að fyrir hverjar þrjár bækur sem nemendur í 1. – 7. bekk lesa fylla þau út miða sem þau sækja í gegnum www.visindamadur.is. Foreldri eða kennari kvitta á hvern miða og svo verður miðinn settur í lestrarkassa sem er staðsettur á skólasafninu í hverjum skóla. Því fleiri bækur sem börnin lesa því fleiri miða eiga þau í pottinum. Þá er það nýlunda í ár að hljóðbækur, eða ef einhver les fyrir barnið, teljast með sem lesin bók. Það skiptir engu máli hvort bókin sem er lesin sé löng eða stutt, teiknimyndasaga, Myndasögusyrpa eða skáldsaga – bara svo lengi sem börnin lesa. Sömuleiðis skiptir tungumálið sem bókin er á ekki máli. Bækurnar mega vera á íslensku, dönsku, frönsku, pólsku, japönsku, ensku o.s.frv. – bara svo lengi sem börnin lesa.

Í lok átaksins verða dregin út nöfn fimm barna og fá þau í verðlaun að verða persónur í stórhættulegri ævintýrabók eftir Ævar, sem ber heitið Bernskubrek Ævars vísindamanns 3: Gestir utan úr geimnum og kemur út með vorinu hjá Forlaginu – svo það er til mikils að vinna. Í frétta tilkynningu segir að þetta sé lestrarátak gert af bókaormi, til að búa til nýja bókaorma – dýrategund sem má alls ekki deyja út.

Lestrarátakið er unnið í samstarfi við Mennta- og menningarmálaráðuneytið, Reykjavík Bókmenntaborg UNESCO, RÚV, Málefli, Póstinn, Brandenburg auglýsingastofu, IBBY á Íslandi, 123skoli.is, Forlagið, Heimili og skóla og Barnavinafélagið Sumargjöf.

annska@bb.is

DEILA