Krónan ekki styrkst eins mikið frá því í kreppunni miklu

Styrking krónunnar á síðasta ári var sú mesta á mælikvarða gengisvísitölu síðan Seðlabankinn hóf að birta slíkar vísitölur árið 1991, að því er fram kemur í Hagsjá hagfræðideildar Landsbankans. Gengisvísitalan mælir breytingar á gengi krónunnar að teknu tilliti til vægis einstakra gjaldmiðla í inn- og útflutningi.

Á síðasta ári lækkaði gengisvísitala krónunnar um 10,6%, en vísitölulækkun samsvarar hækkun á gengi krónunnar. Áður hafði krónan styrkst hlutfallslega mest milli áranna 2004 og 2005 þegar gengisvísitalan lækkaði um 10,1% á milli ársmeðaltala.

Landsbankinn vísar til þess að líta þurfi allt aftur til kreppunnar miklu á fjórða áratugnum til að finna meiri styrkingu krónunnar gagnvart erlendum gjaldmiðlum, en á þeim tíma var þó einungis til skráð gengi krónu gagnvart dollar. Árin 1933 og 1934 lækkaði gengi dollarans að meðaltali um 16,7% gagnvart krónu.

smari@bb.is

DEILA