Íslendingar feitastir og háma í sig sykur

Íslendingar eru gráðugir í gosdrykki sem eru stútfullir af sykri.

 

Íslendingar eru feitastir Norðurlandaþjóða og innbyrða meira af sykurríkum matvælum og borða minna af grænmeti og ávöxtum. Fiskneysla er aftur á móti mest hér á landi. Þetta og margt fleira má lesa um í nýrri skýrslu um heilsuhegðun Norðurlandabúa sem Norræna ráðherranefndin hefur gefið út. Skýrslan byggist á niðurstöðum kannana sem gerðar hafa verið á Norðurlöndunum í samstarfi þjóðanna. Gerðar voru kannanir á þessum þáttum árið 2011 og aftur 2014 og stóð Embætti landlæknis fyrir gerð kanananna hér á landi.

Að meðaltali hreyfa um einn af hverjum þremur fullorðnum Norðurlandabúum sig ekki í samræmi við ráðleggingar um lágmarkshreyfingu árið 2014 líkt og 2011 og á það einnig við um Ísland. Fleiri hreyfa sig ekkert,  en á sama tíma stunda fleiri ákjósanlega hreyfingu. Fleiri fullorðnir flokkast of feitir á Norðurlöndunum 2014 en 2011. Á Íslandi er hærra hlutfall fullorðinna sem teljast of feitir en á hinum Norðurlöndunum. Hlutfall offitu meðal barna á Norðurlöndunum hefur ekki breyst milli ára og ekki er munur á milli landanna.

Hlutfall þeirra sem hreyfa sig ekkert er hæst í Noregi og á Íslandi árið 2014 og hefur aukist hér á landi úr 14% í 17% á tímabilinu. Athygli vekur að hlutfall 18–24 ára Norðurlandabúa sem hreyfa sig ekkert hefur nær tvöfaldast og er nú sambærilegt og í eldri aldurshópum eða um 12% 2014.

Hvað kyrrsetu varðar verja 30% Norðurlandabúa fjórum klukkustundum eða meira við skjá  í frítíma 2014 og hefur það aukist lítillega frá 2011. Þetta hlutfall er lægst meðal Svía og Íslendinga, á við um einn af hverjum fjórum árið 2014. Félagslegur ójöfnuður er enn mikill bæði með tilliti til skjásetu og hreyfingar.

 

smari@bb.is

DEILA