Harðverjar nældu í fern verðlaun í Bikarglímunni

Stígur Berg Sophusson og Margrét Rún Rúnarsdóttir er þau tóku við verðlaunum á föstudagskvöldið

 

Tvenn silfurverðlaun og tvenn bronsverðlaun komu í hlut Harðverja á Bikarglímu Íslands sem fram fór síðastliðið föstudagskvöld í íþróttahúsi Kennaraháskólans í Reykjavík. Á mótið mættu til keppni 38 keppendur frá 6 löndum, Íslandi, Skotlandi, Frakklandi, Svíþjóð, Hollandi og Ítalíu. Voru það Margrét Rún Rúnarsdóttir og Stígur Berg Sophusson sem kepptu fyrir hönd Harðar.

Það fór fram mikil og hörð barátta hjá glímuköppunum á mótinu og landaði Margrét Rún bronsi í +65kg flokki kvenna og silfri í opnum flokki. Stígur vann silfur í þungavigtinni +90kg karlar og brons í opnum flokki. Til marks um harða baráttu gat Margrét Rún ekki tekið þátt í Íslandsmeistaramóti í backhold sem fram fór á laugardag eftir að hafa meiðst á framhandlegg í úrslitaglímu föstudagsins. Þá komst Stígur þar í undanúrslit í sínum flokki, en sleit í þeirri glímu liðbönd í öxl og varð frá að hverfa.

Glímusamband Íslands hefur valið keppendur í landslið Íslands í glímu, sex karla og fimm konur sem munu keppa á Evrópumeistaramótinu í keltneskum fangbrögðum sem fer fram í Austurríki dagana 7.-11.apríl næstkomandi og er Margrét Rún meðal þeirra landsliðsmanna sem þar munu keppa.

annska@bb.is

 

DEILA