Grunnvíkingar og Sléttuhreppingar halda sameiginlegt blót

Átthagafélögin norðan Djúps hafa haldið þorrablót í áratugi.

 

Í ár ætla átthagafélög Sléttuhreppinga og Grunnvíkinga að sameinast um þorrablót og verður það haldið í Félagsheimilinu Hnífdal 11. febrúar. Félögin hafa í áratugi staðið fyrir þorrablótum sitt í hvoru lagi og hafa þau verið vettvangur fyrir brottflutta Grunnvíkinga og Sléttuhreppinga og afkomendur þeirra til að hittast og skemmta sér saman. Blótin hafa yfirleitt verið vel sótt en síðustu ár þegar sú kynslóð sem bjó í Sléttuhreppi og Grunnavíkurhreppi er mikið til horfin og farið að fækka í annarri kynslóð þá hefur dregið nokkuð úr aðsókn. Til þess að mæta því hefur sú hugmynd verið viðruð undanfarin ár að hafa sameiginlegt þorrablót félaganna tveggja, enda eiga þau margt sameiginlegt og margir sem eiga ættir að rekja í báða hreppana.  Nú hafa stjórnir og skemmtinefndir félagana tekið þá ákvörðun að prófa nýtt fyrirkomulag og sameinast eina kvöldstund.

Þeir sem eiga rætur sínar að rekja norður fyrir Djúp og á Hornstrandir hafa sterkar tilfinningar til upprunans og átthaganna, sem fóru í eyði er forfeður þeirra þurftu flytja búferlum á mölina þar sem lífið var auðveldara og uppbyggingin hröð. Lífsbaráttan á Hornströndum og í Jökulfjörðum var erfið og það var ekki vilji stjórnvalda á þeim tíma að leggja fé í uppbyggingu á svæðinu, svo auðvelda mætti fólki að búa þar áfram. Margir afkomendur þessa fólks eiga athvarf í eyðibyggðunum fyrir norðan og dvelja þar á sumrin. Afkomendur og vinir þeirra er þurftu að yfirgefa heimahagana, um miðja síðustu öld, ætla nú að skemmta sér á sameignlegu þorrablóti.

smari@bb.is

DEILA