Gleðilegt nýtt ár og takk fyrir það gamla

Nú er árið 2016 runnið í aldanna skaut og aldrei það kemur til baka, það var árið sem tók ansi margar stórstjörnur þó reyndar megi deila um hvort það var árið eða eiturlyfin sem ábyrgð bera á fráfalli þeirra. Árið 2016 var um margt merkilegt og nægir þá að nefna landsmálin, óvenjumikill trúnaðarbrestur varð milli stjórnvalda og almennings sem leiddi til þess að forsætisráðherra sagði af sér eftir ein fjölmennustu mótmæli íslandssögunnar og boðað var til kosninga að hausti. Nýir stjórnmálaflokkar náðu góðum árangri í kosningunum en illa hefur gengið að raða saman stjórn. Ísland hefur verið í sviðsljósi fjölmiðla um allan heim fyrir það heimsmet að eiga flesta í Panamaskjölunum, sérstaklega opinberar persónur.

Þessa árs verður minnst sem árinu þar sem almenningur gerði sér grein fyrir valdi sínu og nýtti það, almenningi mislíkaði spilling stjórnvalda og setti forsætisráðherra af, almenningi mislíkaði líka lygar forsvarsmanna Brúneggja og enginn kaupir lengur Brúnegg.

Í útlöndum hefur stríðið í Sýrlandi sett sitt mark á árið og miskunnarlaus dráp á saklausu fólki, nánast í beinni útsendingu. Í henni Ameríku var kosinn forseti, sagan mun segja okkur hvort hann reynist sú ógn við heimsfriðinn sem margir telja nú. Og í Evrópu voru það Brussel, Nice og Berlín sem voru í skotlínu hryðjuverkamanna árið 2016.

Hjá okkur hér Bæjarins besta og bb.is hófst árið með látum með umfjöllun um ráðningu tónlistarskólastjóra í Vesturbyggð og talsverða athygli vakti sömuleiðis umræður um nekt í saunaklefum en það var Eiríki Erni Norðdal mikið áhugamál. Fréttir af Orkubúi Vestfjarða voru fyrirferðamiklar framan af ári enda miklar sviptingar í stjórn OV. Ríkisendurskoðun gerði alvarlegar athugasemdir við vinnubrögð vegna ráðningar Orkubússtjóra og þóttu þau ekki til fyrirmyndar. Gullrillurnar komu, sáu og sigruðu á árinu og voru fréttaefni meira eða minna allt árið, enda miklar afrekskonur þar á ferð. Í maí hvolfdi bát út af Aðalvík og fórst þar einn maður. Í júlí brann útihús í Tannanesi í Önundarfirði til kaldra kola. Þegar líða tók á haustið fóru stjórnmálamenn að láta í sér heyra, nýir kynntir til sögunnar og aðrir að fara frá og allt fram yfir kosningar var bæði vefur og blað undirlagt af kosningamálum. Fiskeldi hefur verið reglubundnum hætti verið til umfjöllunar, í mars var sérstakt tölublað lagt undir kosti og galla fiskeldis en atvinnugreinin er svæðinu mikilvæg og um leið afar umdeild. Dýrafjarðargöng hafa sömuleiðis verið fréttaefni, ekki síst nú í desember þegar framkvæmdir við þau duttu út af fjárlögum, og síðan inn aftur. Sjómannaverkfall og afleiðingar þess hafa verið til umfjöllunar nú í árslok.

Á næstu dögum mun nýr vefur bb.is vera kynntur til sögunnar en sá gamli sem hefur þjónað okkur í hálfan annan áratug verður lagður til hinstu hvílu. Hann hefur staðið sig vel, verið öruggur og snar en seinfær fyrir nýjungar og svo sannarlega barn síns tíma. Það eru allar líkur á að nýr vefur valdi okkur og lesendum einhverjum vandræðum til byrja með en vonandi til bóta þegar til framtíðar er litið.

Við á bb.is og Bæjarins besta sendum okkar allra bestu nýjárskveðjur til ykkar allra með kærri þökk fyrir áhugann á liðnum árum.

Bryndís Sigurðardóttir
Ritstjóri

DEILA