Gjörbylting með nýjum troðara

Jón Smári (t.v.) fær lykavöldin afhent.

Í haust festi skíðasvæði Ísafjarðarbæjar kaup á átta ára gömlum Kässbohrer Pisten Bully 600 snjótroðara. Troðarinn er með spili sem mun gjörbylta öllu verklagi á skíðasvæðinu, en troðarinn geturi spilað sig upp bröttustu brekkurnar og sömuleiðis heldur spilið við troðarann á niðurleiðinni sem gerir brekkurnar vandaðri og öruggari. Á vef skíðasvæðisins kemur fram að talsverður tíma- og olíusparnaður fæst með spilinu þar sem ekki þarf að keyra troðarann inn dalinn til að komast upp á topp.

Troðarinn fór í gegnum upptekt í verksmiðjum Kässbohrer og er því eins og nýr. Starfsmenn Skíðasvæðisins fengu troðarann afhentan á laugardag og fór helgin í að koma honum saman og fara yfir virkni tækjabúnaðar.

Jón Smári Valdimarsson verður allsráður á nýja troðaranum og tók hann við lyklum af mönnum frá Kässbohrer. Jón Smári er eðlilega afar spenntur að prófa nýju græjuna og nú vantar ekkert nema meiri snjó í brekkurnar í Tungudal.

smari@bb.is

DEILA