Fyrsti leikurinn í kvöld

Opnunarleikur HM 2017 í handbolta fór fram í gær og hinir Frönsku heimsmeistarar lögðu Brasilíumenn með miklum bravúr með 31 stigi gegn 16. Vincent Gerard markmaður var valinn maður leiksins en hann var í marki Frakka í seinni hálfleik.

Íslenska liðið er í B-riðli og etur kappi við feiknasterkt lið Spánar í kvöld kl. 19:45. Spænska liðið spilaði til úrslita á EM í Póllandi í fyrra þar sem það tapaði fyrir Þýskalandi. Fram kemur á ruv.is að leikmenn liðsins gjörþekki hvern annan og hafi spilað lengi saman. Góðu fréttirnar fyrir Íslenska liðið eru að fyrirliðinn Enterríos verður látinn hvíla í leiknum í kvöld en hann hefur glímt við meiðsli.

Talsverð endurnýjun er í Íslenska liðinu og munu áhorfendur þurfa að læra nokkur ný nöfn og efalaust sakna þeirra sem nú eru hættir. Það eru Arnar Freyr Arnarsson, Bjarki Már Elíasson, Janus Daði Smárason og Ómar Ingi Magnússon sem þreyta frumraun sína á stórmóti að þessu sinni og spennandi að sjá hvernig þeim gengur. Guðjón Valur var í þeirra sporum í Króatíu árið 2000 og enn gleður hann áhorfendur með snilli sinni á vellinum. Illu heilli var Aroni Pálmasyni snúið heim og tekur hann ekki þátt að þessu sinni vegna meiðsla.

Næsti leikur hjá Íslenska liðinu er gegn Slóveníu á laugardag og hefst hann kl. 13:45.

bryndis@bb.is

DEILA