Fylgja þarf reglum um hundahald

Þessi hressi ferfætlingur var eitt sinn í heimskönnun án eigenda sinna

Af og til berst lögreglu kvörtun um lausagöngu hunda í þéttbýli og barst slík tilkynning Lögreglunni á Vestfjörðum um nýliðna helgi vegna hunds sem var laus í miðbæ Ísafjarðar. Ekki kom til föngunar að þessu sinni þar sem eigandi sótti strokudýrið áður en til þess kom. Mikilvægt er að eigendur hunda fylgi reglum um hundahald, segir í tilkynningu frá lögreglu og bendir á hundur þarf að vera í taumi ef gengið er með hann í þéttbýli þar sem fólk kunni að vera hrætt við hunda og reglunum er m.a. ætlað að tryggja að það fólk geti gengið óttalaust um gangstéttir og göngustíga.

Það er á könnu sveitarfélagsins að handsama lausa hunda. Í slíkum tilfellum er fólk beðið um að hafa samband við forstöðumann þjónustumiðstöðvar í síma 620-7634 eða um netfangið ahaldahus@isafjordur.is og verður hundurinn þá fangaður og greiða eigendur þá fyrir handsömun og vörslu ferfættu heimskönnuðanna.

annska@bb.is

DEILA