Fárveikum manni gert að hringja í 1700

Það er ekki nóg að komast inn um þessar dyr, þú þarft samt að hringja eftir aðstoð.

Á laugardag kom vegfarandi á Hlíðarvegi á Ísafirði að manni sem fengið hafði aðsvif og lognast út af. Bankaði hinn gangandi vegfarandi strax upp á í næsta húsi og bað húsráðendur að hringja á eftir hjálp. Maðurinn var þá kominn til fullrar meðvitundar og gat gert grein fyrir því að hann væri á leið á Heilbrigðisstofnun Vestfjarða til að leita hjálpar vegna lungnabólgu sem þjakaði hann. Húsráðendur brugðu á það ráð að annar skyldi aka honum beint á sjúkrahúsið sem er staðsett steinsnar frá húsinu, á meðan að hinn hringdi á lækni.

Ekki svaraði strax í 1700, svo húsráðandi fletti upp númeri undir formerkjum Læknavaktarinnar og fær þá að það sé 1770. Eftir að hafa valið sig áfram til að fá loks aðstoð, kom í ljós að hann var númer þrjú í röðinni. Ákvað hann þá að hringja í 112, en segir að talsvert sé nú síðan að mennirnir hafi komið á sjúkrahúsið og því eflaust búnir að fá aðstoð.

Móttökur á Heilbrigðisstofnun Vestfjarða voru með þeim hætti að sjúklingnum og þeim sem aðstoðaði hann var bent á að hringja vaktsímann 1700 til að fá aðstoð. Íbúinn sem heima sat við símann hringdi þá aftur í 112, þar sem boðist var til að hringja eftir sjúkrabíl fyrir manninn sem þegar var kominn á sjúkrahúsið, til þess að kalla mætti til lækni eftir þeim leiðum.

Í nóvember kom upp tilvik af svipuðum toga, slasaður maður sem kom sér sjálfur á sjúkrahúsið var gert að dúsa í anddyrinu og hringja sjálfur í hjúkrunarfræðing í Reykjavík sem gaf honum svo samband við lækni á Ísafirði. Hallgrímur Kjartansson, framkvæmdastjóra lækninga við Heilbrigðisstofnun Vestfjarða sagði þá að það væri stundum ekki ljóst ef sjúklingar komi sér sjálfir á staðinn eftir almennan opnunartíma stofnunarinnar, hvort vandinn sé af þeim toga að beri að bregðast við honum strax eða hvort málin geti fengið afgreiðslu í gegnum vaktnúmerið 1700. Segir hann að ef um augljós bráðatilvik er að ræða séu sjúklingar fyrirvaralaust teknir inn á deild og læknir kallaður til og í þessu tilfelli hefði átt að taka strax á móti sjúklingnum.

Svör Hallgríms við þessu tilviki eru á svipaðan veg, hringja ætti í neyðarnúmer eftir aðstoð eða sjúklingar sem sjálfir eða með aðstoð annarra komast á sjúkrahúsið er gert að hringja sjálfir í vaktsíma. Í báðum þessum tilvikum er heilbrigðismenntað starfsfólk inn á stofnuninni á meðan að annað heilbrigðismenntað starfsfólk annarsstaðar á landinu reynir að greina gegnum síma hvort viðkomandi þurfi aðstoð eða ekki, og í báðum þessara tilfella mátti þykja ljóst að mennirnir þurftu aðstoðar læknis, en maðurinn í þessu tilfelli reyndist alvarlega veikur.

annska@bb.is

DEILA