Áreiðanlegt að einkahlutafélögin valdi tekjumissi

Gísli Halldór Halldórsson.

„Ég tel áreiðanlegt að fyrirkomulagið með einkahlutafélög valdi tekjumissi hjá sveitarfélögum. Fyrst og fremst er þar um að ræða mikil áhrif af hinu lagalega fyrirkomulagi, þrátt fyrir að uppfylltar séu allar lagaskyldur og skattar taldir fram með bestu samvisku,“ segir Gísli Halldór Halldórsson, bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar. Nokkur umræða hefur spunnist um skattgreiðslur einkahlutafélaga og skarðan hlut sveitarfélaga eftir bókun Péturs G. Markan, sveitarstjóra Súðavíkurhrepps. Í bókuninni  leiddi hann líkum að því Súðavíkurhreppur tapi skatttekjum vegna einkaneyslu sem eigendur einkahlutafélaga taki í gegnum fyrirtæki sín.

Gísli Halldór segir að eitthvað hljóti að vera um að heimildir séu misnotaðar. „Ég hef engar talnalegar upplýsingar um það en geri þó ekki ráð fyrir að stærstu upphæðirnar liggi í slíkri misnotkun eða skattsvikum.“

Ýmsir hafa gert athugasemdir við áhrif af einkahlutafélögum á skatttekjur sveitarfélaga í gegnum árinu, þ.e.a.s. áhrifin af þeirri breytingu sem gerð var á skattalögum í upphafi aldarinnar að einstaklingur í atvinnurekstri getur stofnað einkahlutafélag sem tekur við öllum eignum og skuldum.

Gísli Halldór bendir á að Reykjavíkurborg gerði árið 2001 útreikninga sem bentu til að sveitarfélögin yrðu af tekjum sem svarar til 2,7 milljarða á núgildandi verðlagi. „Ég veit ekki hvernig það myndi reiknast í dag. Þetta getur svo orðið hlutfallslega meira í sveitarfélögum sem reiða sig mikið á einstaklingsrekstur  eins og líklega er algengast í smærri sveitarfélögum.“

Hann segir að margir kannist eflaust við að fólk með stöndug fyrirtæki reikni sér fáránlega lág laun. Gísli Halldór leggur áherslu á að eftirlit með skattgreiðslum sé verkefni skattayfirvalda, sveitarfélögin hafi enga aðkomu að slíku eftirliti.

Rekstri margra sveitarfélaga verður að mati Gísla Halldórs stefnt í hættu ef ríkið gerir ekki úrbætur á tekjustofnum sveitarfélaga. Hann nefnir sem dæmi að sveitarfélögin hafa byggt upp leikskólana og grunnskólana á undanförnum áratugum án þess að fá til þess neina tekjustofna frá ríkinu. „Nú er einmitt orðin brýn þörf á að tryggja börnum leikskólapláss frá lokum fæðingarorlofs og það verður ekki gert með góðu móti nema til komi nýir tekjustofnar, að öðrum kosti yrði rekstri fjölmargra sveitarfélaga stefnt í hættu við fjölgun leikskólaplássa,“ segir Gísli Halldór.

smari@bb.is

DEILA