250 ferðaþjónustuaðilar undirrituðu ábyrgðaryfirlýsingu

Ferðamenn fylgjast með í Neðstakaupstað á Ísafirði

Í gær var undirrituð víðsvegar um landið yfirlýsing um ábyrga ferðaþjónustu. Þegar hafa yfir 250 ferðaþjónustuaðilar skráð sig í verkefnið sem lýtur að því að stuðla að ábyrgri ferðaþjónustu með því að: Ganga vel um og virða náttúruna, tryggja öryggi gesta og koma fram við þá af háttvísi, virða réttindi starfsfólks og hafa jákvæð áhrif á nærsamfélagið. Sett verða upp markmið um þessa þætti og þeir mældir og reglulega birtar upplýsingar um árangur fyrirtækisins. Þátttaka í yfirlýsingunni er þátttakendum að kostnaðarlausu en gert er ráð fyrir að henni fylgi raunverulegar aðgerðir fyrirtækjanna og áhrif þessa sameiginlega átaks geti því orðið umtalsverð. Það er Festa – miðstöð um samfélagsábyrgð og Íslenski ferðaklasinn, í samstarfi við félög og stofnanir ferðaþjónustunnar, sem standa fyrir verkefninu og er verndari þess Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands.

Á Vestfjörðum var efnt til undirritunar í Vestrahúsinu á Ísafirði og Þróunarsetrinu á Hólmavík og hafa þegar nokkur fyrirtæki á svæðinu skráð þátttöku sína, eða: Markaðsstofa Vestfjarða, Westfjordian, Iceland Backcountry Travel, Heydalur og Strandagaldur. Enn er opið fyrir skráningu og segist Díana Jóhannsdóttir hjá Markaðsstofu Vestfjarða hafa fulla trú á því að fleiri vestfirsk fyrirtæki muni skrá þátttöku sína þar sem hún hafi skynjað talsverðan áhuga á málefnum umhverfislegrar og félagslegrar ábyrgðar á svæðinu.

annska@bb.is

DEILA