Petsamo eftir Arnald Indriðason er vinsælasta bókin í keppninni.

Íbúar Strandabyggðar taka lestur alvarlega og hafa tekið afgerandi forystu í landsleiknum Allir lesa. Þriðji landsleikurinn er haldinn nú á þorranum, frá 27. janúar til konudagsins 19. febrúar 2017. Keppt er í liðum og/eða sem einstaklingur og mældur sá tími sem varið er í lestur. Nú þegar nokkrir dagar eru liðnir af keppninni mælist lestur Strandamanna 22 klst. og næst á eftir þeim koma íbúar Dalabyggðar með 7,3 klst.

Í lok þorra verða sigurlið heiðruð með verðlaunum og viðurkenningum, svo og sá einstaklingur sem ver mestum tíma í lestur á þessu tímabili. Einstaklingskeppnin er nýbreytni í ár svo nú verður í fyrsta sinn ljóst hver er aðal lestrarhestur landsins. Hver þátttakandi getur keppt bæði sem einstaklingur og í liði, eða valið aðeins annan kostinn.

Allar tegundir bóka eru gjaldgengar. Það skiptir ekki máli hvernig bækur þú lest eða hvort þú lest prentaðan texta, rafbók eða hljóðbók. Hér er átt við allar bækur sem innihalda til dæmis skáldskap, fræði, skýrslur eða eitthvað allt annað. Lestu þér til ánægju um leið og þú keppir í lestri.

Allir geta myndað lið, til dæmis á vinnustaðnum, í saumaklúbbnum, vinahópnum eða með fjölskyldunni. Foreldrar sem lesa fyrir ung börn sín eru sérstaklega hvattir til að mynda lið með börnunum og skrá lesturinn. Einn aðili, liðsstjórinn, stofnar lið inni á vefnum og bætir öðrum liðsmönnum í liðið. Aðrir geta einnig fundið liðið og gengið í það. Þau lið sem verja mestum tíma í lestur standa uppi sem sigurvegarar.

smari@bb.is

DEILA