10 ár frá stofnun Matís

Matvælarannsóknir Íslands – Matís varð 10 ára þann 1. janúar. Árið 2007 tók Matís formlega til starfa er rannsóknastofa Umhverfisstofnunar, Rannsóknarstofnun landbúnaðarins (RALA), Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins (RF) og líftæknifyrirtækið Prokaria, sameinuðust undir einum hatti. Þar var þá kominn sameiginlegur vettvangur til rannsókna á matvælum og í líftækni. Hjá hinu nýstofnaða fyrirtæki var áhersla lögð á að auka verðmætasköpun í íslenskri matvælaframleiðslu, matvælaöryggi og lýðheilsu.

Matís hefur vaxið fiskur um hrygg þau 10 ár sem fyrirtækið hefur starfað í þessari mynd og er í dag þekkingarfyrirtæki sem sinnir fjölbreyttu rannsókna- þjónustu- og nýsköpunarstarfi í matvæla- og líftækniiðnaði. Matís veitir ráðgjöf og þjónustu til fyrirtækja í sjávarútvegi og landbúnaði, sem og íslenska ríkinu. Sem dæmi kemur Matís að þróun á nýjum vörum og ferlum fyrir fyrirtæki og hefur mikilvægu hlutverki að gegna varðandi gæði og öryggi matvæla, en fyrirtækið gegnir þó ekki eftirlitshlutverki líkt og fjallað var um í tengslum við Brúneggjamálið síðla á síðasta ári.

Fyrirtækið er með 6 starfsstöðvar á Íslandi þar á meðal á Ísafirði og Patreksfirði þar sem lögð er áhersla á þróun vinnsluferla í samstarfi við fyrirtæki á svæðinu. Þar er almennri tækniráðgjöf fyrir viðskiptavini Matís sinnt, í formi hönnunar og tæknivinnu. Einnig er lögð áhersla rannsókna- og þróunarstarf, sem og á fiskeldi, einkum þorskeldi í sjó. Gunnar Þórðarson hjá Matís á Ísafirði hlaut í nóvemberlok Svifölduna ásamt og Alberti Högnasyni hjá 3X Technology. Svifaldan er veitt fyrir framúrstefnuhugmynd ársins og eru verðlaunin veitt á Sjávarútvegsráðstefnunni. Hugmynd þeirra var um ofurkælingu á botnfiski.

Á heimasíðu fyrirtækisins er nú að finna ársskýrslu síðasta árs, þar sem jafnframt er stiklað á stóru í starfssemi Matís í einskonar smásagnaformi og segir í fréttatilkynningu frá fyrirtækinu að innihaldið sýni svo ekki verði um villst að stofnun Matís var rökrétt og mikið framfaraskref á sínum tíma. Skýrsluna má sjá hér.

annska@bb.is

DEILA