Sigrar Katrínar

Katrin Björk Guðjónsdóttir

Katrín Björk Guðjónsdóttir lætur ekki deigan síga ef marka má bloggið hennar og þar má lesa um framfarir hennar og sigra. Hún hefur dvalið hjá foreldrum sínum á Flateyri yfir hátíðarnar og augljósar framfarir hennar eru gleðilegar. Katrín er aðeins 23 ára gömul en er eins og hún segir á síðunni sinni „í bataferli eftir tvær heilablæðingar og einn blóðtappa“

Í nýjustu færslunni má lesa um hvílíkar framfarir hún hefur náð á árinu sem er að líða. Í byrjun árs var hún tiltölulega nýlega farin að halda höfði, hreyfa vinstri hendi og geta notað höndina til að stafa en þangað til hafði hún aðeins getað stafað með augunum. Katrín segist hafa verið ósátt og leið en jólastemming jólanna 2015 hafi þó glatt hana mikið. Að geta rúllað sér í hring í rúminu sínu var afrek þeirra jóla en núna getur hún sest upp, gengið með stuðningi bæði upp og niður stiga og tjáð sig með einstaka orðum og setningum.

Katrín er greinilega mikið jólabarn og nýtur jólaundirbúningsins og í byrjun desember voru verkefni næstu daga skráð skilmerkilega; tala meira, undirbúa heimferð, ganga meira, kaupa jólaskraut, skreyta, baka, kaupa jólagjafir og pakka jólagjöfum.

Hægt er fylgjast með ótrúlegu baráttuþreki Katrínar á bloggsíðu hennar hér.

bryndis@bb.is

DEILA