Foráttuhvasst á fjallvegum

Djúp lægð gengur yfir landið í dag, með öflugum hitaskilum. Þeim fylgir ofsaveður á vestur og norðvesturlandi frá því um klukkan tíu til klukkan tvö í dag. Búist er við sunnanstormi eða -roki í dag með talsverðri rigningu og asahláku. Á Vestfjörðum verður í dag, þriðjudag, sunnan 20-28 metrar á sekúndu og talsverð rigning. Hiti 4 til 10 stig. Þegar líða tekur á daginn breytist áttin í suðvestan 15-23 metra á sekúndu og él undir kvöld þegar kólnar.

Veðurfræðingur Vegagerðarinnar segir að foráttuhvasst verði á fjallvegum vestanlands, svo sem á Bröttubrekku, Holtavörðuheiði, Laxárdalsheiði, Steingrímsfjarðarheiði og á sunnanverðum Vestfjörðum.

Á Vestfjörðum er nú hálka á flestum leiðum þessa stundina en þæfingsfærð á Steingrímsfjarðarheiði og krapi á Mikladal og Hálfdán. Flughálka er á nokkrum köflum svo sem á Kollafirði á Barðaströnd, Ísafjarðardjúpi, í Steingrímsfirði og á Innstrandavegi.

Fólk er hvatt til að hreinsa frá niðurföllum til að forðast vatnstjón. Í og við fjalllendi er hætt við vatnsaga og krapa- og aurflóðum úr giljum og rásum.

brynja@bb.is

DEILA