Kynnir Ultimate Frisbee fyrir Vestfirðingum

Maður leikur sér í folfi, einnig nefnt frisbee golf.

Til stendur að að kynna Ultimate Frisbee fyrir íbúum á norðanverðum Vestfjörðum í kvöld. Halla Mia, fréttaritari Ríkisútvarpsins á Vestfjörðum stendur fyrir kynningunni: „Ég kynntist ultimate frisbee í Berlín, það er frekar vinsælt í Þýskalandi, Ástralíu, Bandaríkjunum og Kanada. Það er kannski rokið sem veldur að það hefur ekki náð fótfestu hér.“ En samkvæmt Höllu þarf maður að vera klárari í að kasta ef spilað er í roki, því sé oft spilað innanhúss.

Halla útskýrði leikinn stuttlega fyrir blaðakonu: „Það eru 5-7 í liði. Markmiðið er að koma disknum yfir völlinn og að hann sé gripinn á marksvæðinu sem er á enda vallarins. Það má ekki hlaupa á meðan maður er með diskinn í höndunum.“ Það sem er sennilega merkilegast er að það eru aldrei dómarar heldur snýst þetta um að leikmenn gera brotin upp sjálfir og segir Halla Mia regluna „sá vægir sem vitið hefur meira“ gilda á vellinum.

Á Facebook-síðu viðburðarins segir „Allir velkomnir, engir frisbíhæfileikar nauðsynlegir bara áhugi.“ Fyrir áhugasama um ultimate frisbee má lesa meira á vef Wikipediu.

Kynningin verður haldin í kvöld, mánudag klukkan 20 í íþróttamiðstöðinni Árbæ í Bolungarvík, sem er í sama húsnæði og Musteri vatns og vellíðunar.

brynja@bb.is

DEILA